Bíbí í Berlín uppfrædd og fermd

Autor: Guðrún V. Stefánsdóttir, Sólveig Ólafsdóttir, Sigurður Gylfi Magnússon
Rok vydání: 2022
Předmět:
Zdroj: Netla.
ISSN: 1670-0244
DOI: 10.24270/serritnetla.2022.94
Popis: Bíbí hét fullu nafni Bjargey Kristjánsdóttir (1927–1999) og var kennd við kotbæ foreldra sinna, Berlín, sem var rétt utan við Hofsós. Hún þótti bráðgert barn en veiktist á fyrsta ári og var í kjölfarið stimpluð sem „fáviti“ af fjölskyldu sinni og sveitungum. Bíbí var fædd á þeim tíma sem fötluðu fólki og fjölskyldum þess stóð engin opinber þjónusta til boða. Hún naut engrar formlegrar skólagöngu, var hornreka á heimilinu framan af og var falin fyrir gestum og gangandi. Bíbí skildi eftir sig umfangsmikla sjálfsævisögu sem hún skrifaði í einrúmi, hélt leyndri fyrir fjölskyldu sinni og samferðafólki og fáir vissu um tilvist hennar. Sjálfsævisaga Bíbíar ber vott um góða greind og innsæi í líf sitt og aðstæður og kemur að flestum tímabilum í lífshlaupi hennar. Markmið greinarinnar sem hér fer á eftir er tvíþætt. Annars vegar að varpa ljósi á barnæsku Bíbíar, uppfræðslu hennar og fermingu eins og birtist í sjálfsævisögunni, en þó að hún hafi ekki gengið í skóla fékk hún kennslu heima fyrir og lærði meðal annars að lesa og skrifa. Hins vegar er rýnt í margþættar opinberar heimildir sem til eru um barnæsku Bíbíar með það að markmiði að afhjúpa söguleg viðhorf sem enn þann dag í dag setja mark sitt á skólagöngu og tilveru fatlaðs fólks. Með þeim hætti teljum við að greina megi þau menningarlegu viðhorf sem finna mátti á þeim tíma sem Bíbí var að alast upp og um leið spegla samtímann í sögu hennar. Sjálfsævisaga Bíbíar er einstök heimild sem stendur framarlega í flokki íslenskra sjálfsbókmennta þar sem hún er til þess fallin að auka þekkingu á stöðu þeirra sem voru á jaðri samfélagsins, ekki síst fatlaðra kvenna og stúlkna.
Databáze: OpenAIRE