Lýðræðishlutverk háskóla og áskoranir samtímans

Autor: Vilhjálmur Árnason
Rok vydání: 2022
Předmět:
Zdroj: Netla.
ISSN: 1670-0244
DOI: 10.24270/serritnetla.2022.84
Popis: Í greininni er leitað svara við spurningunni hvernig háskólar geti best þjónað lýðræði í samtímanum sem einkennist af upplýsingaóreiðu, ófrjálslyndum hugmyndum og viðskiptavæðingu á flestum sviðum. Reifaðar eru þrenns konar ólíkar röksemdir um tengsl lýðræðis og háskóla; rök í anda frjálslyndis, þátttökulýðræðis og rökræðulýðræðis. Ræddar eru lykilhugmyndir í hverjum þessara röksemda og spurt um þýðingu þeirra fyrir lýðræðishlutverk háskóla. Því er haldið fram að allar feli þær í sér mikilvæg atriði, en að rökræðulýðræðisrökin hafi mest vægi andspænis þeim þáttum sem standa lýðræðislegu hlutverki háskóla fyrir þrifum. Í frjálslyndisrökunum er megináhersla lögð á gildi á borð við akademískt frelsi, fræðilegt hlutleysi og hlutlægni. Með frjálslyndisrökum má renna stoðum undir tiltekið viðnám gegn öflum sem grafa undan þessum gildum, en þau fela ekki í sér vitund um áhrif markaðsvæðingar á háskólastarf. Sú meðvitund er meginhvati þátttökulýðræðisrakanna fyrir lýðræðishlutverki háskóla. Þar er höfuðáherslan á borgaravirkni í þágu samfélagslegra markmiða og þjóðfélagsumræðu. Rök eru færð fyrir að vandasamt geti verið að finna þeirri borgaravirkni farveg sem samrýmist grundvallargildum háskóla. Einnig er dregið í efa að þátttökulýðræðishugmyndir myndi góðan grunn fyrir gagnrýni á markaðsvæðingu háskóla sem er aðalógnin við lýðræðislegt hlutverk hans. Úr þessu bæta rökræðulýðræðisrökin. Þar er bæði horft til þeirrar lýðræðislegu færni borgaranna sem háskólamenntun þarf að byggja upp og til þeirra afla í háskólum og samfélagi sem standa lýðræði fyrir þrifum. Færni háskólaborgara er einkum lýst út frá gagnrýninni hugsun og málefnalegri rökræðuhæfni sem skili sér inn í stofnanir og starfsemi samfélagsins. Þannig er þroskuð skynsemi boðskipta til mótvægis við tæknilega rökvísi og neytendaviðmið sem orðið hafa ráðandi í hugmyndum um háskólastarf og háskólamenntun. Röksemdir rökræðulýðræðis vernda þannig frjálslynd gildi háskólastarfs, en leggja jafnframt áherslu á ábyrga þátttöku háskólaborgara í að verjast þeim öflum sem ógna þeim og setja fram fræðilegan skilning á rótum þeirra afla og gangverki.
Databáze: OpenAIRE